„Ég er mjög spennt að láta til mín taka hjá Blush. Ég hef unnið með Blush að ýmsum verkefnum að undanförnu i í gegnum starf mitt hjá Swipe Media og er spennt fyrir komandi misserum,“ segir Fanney Skúladóttir nýr markaðsstjóri hjá Blush.

Hún kemur frá Swipe Media þar sem hún sá um efnissköpun og umsjón samfélagsmiðla fyrir fjölda fyrirtækja, þar á meðal hjá Blush. Þá hefur hún starfað sjálfstætt sem markaðsráðgjafi á síðastliðnum átta árum og sérhæft sig í markaðssetningu á samfélagsmiðlum.

Fanney segist spennt fyrir því að starfa hjá fyrirtæki eins og Blush sem leggur mikið upp úr markaðssetningu. Hún segir helstu áskorun félagsins að auglýsa vöruúrvalið á stafrænum miðlum. „Það er hægara sagt en gert að auglýsa kynlífstæki á Facebook og Google. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram að fara öðruvísi leiðir í markaðsmálum og hugsa út fyrir kassann.“

Fanney á þrjú börn á aldrinum 3-14 ára og er í sambúð með Sigmari Loga Björnssyni. Hún segir fátt jafnast á við útivist og samveru með fjölskyldunni. „Okkur finnst gott að fara út fyrir bæjarmörkin til að kúpla okkur aðeins út.“

Fanney er mikil tónlistaráhugakona og æfði meðal annars píanó í 10 ár þegar hún var yngri. „Tónlistin er alltaf gott tæki fyrir mig til að slaka á og komast í jafnvægi eftir krefjandi dag.“

Nánar er rætt við Fanneyju í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.