Vátryggingafélag Íslands hefur ráðið Ingibjörg Ásdísi Ragnarsdóttur sem framkvæmdastjóri sölu og þjónustu. Ingibjörg Ásdís var áður forstöðumaður markaðsmála og upplifana hjá VÍS en hún hóf störf hjá félaginu árið 2021. Áður starfaði hún meðal annars hjá Icelandair sem forstöðumaður þjónustu og notendaupplifana og sem svæðisstjóri flugfélagsins á Íslandi. Ingibjörg er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BS-gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla.

Sindri Sigurjónsson hefur einnig verið ráðinn framkvæmdastjóri trygginga og tjóna. Sindri starfar nú sem framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Expectus þar sem hann starfar við ráðgjöf og stefnumótun hjá mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins. Sindri er með meistaragráðu í aðgerðargreiningu frá London School of Economics og með BS-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Jón Árni Traustason, forstöðumaður viðskiptagreindar, mun svo taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Jón Árni hóf störf hjá VÍS árið 2018 en hann starfaði meðal annars áður hjá Skeljungi sem forstöðumaður upplýsingatækni og viðskiptagreindar. Jón Árni er með meistaragráðu í fjármálastærðfræði frá háskólanum í Uppsala í Svíþjóð og BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands.

Auk fyrrgreindra sitja í framkvæmdastjórn Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri, og Anna Rós Ívarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar.

„VÍS hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum. Nú tökum við næsta skref á þeirri vegferð þar sem við stóraukum áherslu á framúrskarandi þjónustu og sókn félagsins á landinu öllu. Það eru öflugir liðsmenn sem skipa nýja framkvæmdastjórn sem ég er fullviss um að eigi eftir að leiða félagið áfram til árangurs. Ég vil þakka öflugu starfsfólki VÍS fyrir frábært starf á óvenjulegum tímum og ég hlakka til komandi tíma,” segir Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS.