Ný stjórn hugbúnaðarfyrirtækisins Moodup hefur tekið til starfa eftir kjör á aukaaðalfundi nú í nóvembermánuði. Stjórnina skipa Björn Brynjúlfur Björnsson, formaður, Herdís Helga Arnalds og Stefán Jökull Stefánsson.

„Stjórninni er ætlað að styrkja félagið enn frekar fyrir áframhaldandi vöxt innanlands auk markaðssóknar til nágrannaríkjanna,“ segir í fréttatilkynningu.

Allir stjórnarmennirnir sinna stjórnunarstöðum hjá öðrum vinnustöðum hérlendis. Björn Brynjúlfur, sem jafnframt er stofnandi Moodup, starfar sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Herdís Helga er framkvæmdastjóri og stofnandi Blómstru og Stefán Jökull er aðstoðarframkvæmdastjóri Kríta.

„Það er mikill fengur fyrir Moodup að fá inn svo öflugt fólk í stjórn félagsins. Þau búa yfir margþættri innsýn þegar kemur að fyrirtækjarekstri og hugbúnaðarþróun ásamt yfirgripsmikilli reynslu af sölu og dreifingu á mörgum markaðssvæðum í Norður-Evrópu. Ég hlakka til að vinna náið með þeim að áframhaldandi vexti félagsins innanlands sem og nýrri fótfestu á erlendri grundu,“ segir Davíð Tómas Tómasson, framkvæmdastjóri Moodup.

Moodup er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem hjálpar vinnustöðum að auka starfsánægju. Fyrirtækið býður upp á margvíslegar tegundir mannauðsmælingaa, til dæmis púlsmælingar, sérsniðnar kannanir og stjórnendamöt.