Tveir nýir stjórnendur hafa verið ráðnir til Íslenskrar erfðagreiningar. Tanya Zharov hefur verið ráðin aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og hefur störf 12. janúar og Lára Ingólfsdóttir hefur verið ráðin fjármálastjóri Íslenskrar erfðagreiningar frá 4. janúar síðastliðnum. Loks hefur Þórir Haraldsson tekið við starfi framkvæmdastjóra rekstrar Íslenskrar erfðagreiningar ásamt því sem hann mun áfram sinna starfi fjárreiðustjóra.
Tanya er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Virðingar og áður Auðar Capital frá árinu 2007. Hún starfaði sem lögfræðingur og framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Íslenskrar erfðagreiningar og deCODE á árunum 1999-2007. Á árunum 1996-1998 var hún skattalögfræðingur og meðeigandi hjá PricewaterhouseCoopers.
Lára starfaði hjá Alvogen frá árinu 2014 og áður hjá Íslenskum fjárfestingum sem fjármálastjóri í 2 ár. Hún starfaði á fjármálasviði Íslenskrar erfðagreiningar og deCODE á árunum 2001-2012 og fyrir þann tíma sem aðalbókari hjá B&L.
Þórir er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur verið fjármálastjóri Íslenskrar erfðagreiningar frá árinu 2009 auk þess að hafa starfað sem fjármálastjóri Saga Investments LLC árin 2011-2012. Hann starfaði sem lögfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2001-2009 en frá 1995-2001 starfaði hann sem aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.