Breytingar hafa verið gerðar á stjórnendateymi hjá Sóltúni heilbrigðisþjónustu (SH) og dótturfélögum.

Innan fyrirtækja Sóltúns heilbrigðisþjónustu starfa yfir 400 starfsmenn, hjá Sóltúni hjúkrunarheimili, Sólvangi hjúkrunarheimili, Sóltúni Heilsusetri, Sóltúni Heima og Sólstöðum starfsmannaleigu.

Þá tekur Halla Thoroddsen við starfi forstjóra um næstu mánaðamót eins og kynnt hefur verið. Viðskiptablaðið ræddi á dögunum við Höllu um tækifæri sem felast í nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Aðrir nýir stjórnendur eru eftirfarandi:

Ingibjörg Eyþórsdóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra Heilbrigðis- og rekstrarsviðs og sem framkvæmdastjóri hjúkrunar. Ingibjörg hefur frá 2019 starfað sem framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sólvangi. Áður starfaði Ingibjörg hjá Köru Connect, við sjálfstæða ráðgjöf á heilbrigðismarkaði, sem rekstrarstjóri hjá Klíníkinni Ármúla og sem deildarstjóri hjá Icepharma. Ingibjörg hefur B.Sc. próf í hjúkrunarfræði og M.Sc. í stjórnun heilbrigðisþjónustu.

Baldur Gísli Jónsson hefur verið ráðinn mannauðsstjóri Mannauðssviðs hjá Sóltúni heilbrigðisþjónustu. Hann starfaði áður sem mannauðsstjóri Landsbankans og sem mannauðsráðgjafi hjá Símanum og Hagvangi. Hann hefur BA gráðu í sálfræði, cand.psych. í sama fagi og MBA gráðu.

Hildur Björk Sigurðardóttir tekur við sem forstöðumaður á Sóltúni hjúkrunarheimili í Sóltúni, Reykjavík. Hún hefur verið aðstoðarframkvæmdastjóri hjúkrunar undanfarin ár hjá Sóltúni en þar á undan framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sólvangi, deildarstjóri í Sunnuhlíð og hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku í Fossvogi. Hildur er með B.Sc. próf í hjúkrunarfræði og M.Sc. í mannauðsstjórnun.

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir tekur við sem forstöðumaður á Sólvangi hjúkrunarheimili í Hafnarfirði en hún hefur starfað undanfarin ár sem hjúkrunarstjóri hjá Sólvangi og Sóltúni. Áður hefur hún starfað sem svæðisstjóri og yfirhjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslunni í Garðabæ, við verkefnastjórn hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, hjúkrunarstjóri hjá Heimaþjónustu Reykjavíkur og deildarstjóri Heilsugæslustöðvarinnar á Egilsstöðum. Helga er með B.Sc. í hjúkrunarfræði, M.Sc. í Nursing og Nurse Practitioner og hefur sérfræðingsréttindi í heilsugæsluhjúkrun.

Bryndís Guðbrandsdóttir tekur við stöðu forstöðumanns Dag- og heimaþjónustu en undir þeirri einingu er Sóltún Heilsusetur, dagdvalir og Sóltún Heima heimaþjónusta. Áður hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Alders Hvile öldrunarheimilis, deildarstjóri Bergåstjern hjúkrunarheimilis, hjúkrunarfræðingur hjá Ballangen hjúkrunarheimili og deildarstjóri heimahlynningar HSS. Bryndís er með B.Sc. í hjúkrunarfræði.