Dr. Sesselja Ómarsdóttir hefur tekið við stöðu forstjóra hjá Genis hf. Hún tekur við starfinu af Sigurgeiri Guðlaugssyni, sem hefur stýrt fyrirtækinu frá ársbyrjun 2022.
Genis hf. er íslenskt líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun lífvirkra kítínfásykra en þau efni, sem unnin eru úr sjávarlífverum, eru notuð í fæðubótarefni, sem lyfjavirk efni og við beinígræðslu.
Sesselja er prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands en þar hefur hún sinnt rannsóknum og kennslu á sviði náttúruefna um árabil. Hún lauk doktorsprófi í lyfjafræði árið 2006 og EMBA gráðu frá TRIUM (LSE, NYU, HEC) árið 2024.
Áður en hún gekk til liðs við Genís starfaði Sesselja sem framkvæmdastjóri lyfjaþróunardeildar hjá Alvotech. Þar leiddi hún þróun líftæknilyfjahliðstæða frá frumþróun til skráningar og hafði umsjón með margvíslegum stjórnunarverkefnum.
Í júní 2024 tryggði Genis sér 1,1 milljarð króna í nýtt hlutafé, fjármögnun sem endurspeglar traust núverandi og nýrra hluthafa á framtíðarsýn þess.