Karl Ásgeirsson hefur tekið við sem viðskiptastjóri Baader á Íslandsmarkaði og sem slíkur aðal tengiliður við íslenskar vinnslur. Karl tekur við góðu búiúr hendi Jochums Ulrikssonar sem látið hefur af störfum hjá Baader Ísland ehf, að því er kemur fram í tilkynningu.
Jochum hefur stýrt fyrirtækinu af lipurð í áraraðir og byggt upp gott samband við viðskiptavini um allt land. Fyrirtækið hefur þjónað íslenskum sjávarútvegi í meira en 60 ár og hefur verið á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki í 12 ár í röð, þar að meðal í ár.
Upphaf starfseminnar má rekja til fimmta áratugarins þegar faðir og afi Jochums stofnuðu fyrirtæki til að þjónusta Baader vélar á Íslandi. Baader í Þýskalandi varð strax hluthafi og hefur Baader Ísland sinnt markaðinum æ síðar.
Við kaup Baader samstæðunnar á Skaganum 3X árið 2022 var tekin sú ákvörðun að sameina krafta Baader Íslands og Skagans 3X. Markmiðið er að koma á enn öflugri þjónustu við viðskiptavini og styrkja sameiginlega nýsköpun í sjávarútvegi.