Halla Björgvinsdóttir hefur verið ráðin yfirlögfræðingur Emblu Medical hf., móðurfélags Össurar en hún býr yfir víðtækri reynslu á sviði alþjóðaréttar og viðskipta. Halla tekur til starfa 1. júlí n.k. með aðsetur í höfuðstöðvum félagsins á Íslandi.

Hún starfaði síðast sem lögmaður hjá JBT Marel Corporation, áður Marel, en hefur áður gegnt lögfræðistörfum hjá MP banka og lögmannsstofunni LOGOS.

Halla er með BA og ML gráður í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og er jafnframt með réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi og hefur lokið verðbréfaréttindaprófi.

„Við bjóðum Höllu velkomna í frábæran hóp stjórnenda hjá félaginu. Þekking hennar á alþjóðlegum viðskiptum og reynsla mun styðja við vöxt félagsins og framkvæmd stefnu okkar á alþjóðamarkaði,“ segir Sveinn Sölvason, forstjóri Emblu Medical.