Dr. Stefan Wendt, viðskiptafræðiprófessor, hefur verið ráðinn deildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Stefan kemur til HR frá Háskólanum á Bifröst þar sem hann var prófessor og deildarforseti við viðskiptadeild frá 2021 til júlí 2024.

Dr. Stefan Wendt, viðskiptafræðiprófessor, hefur verið ráðinn deildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Stefan kemur til HR frá Háskólanum á Bifröst þar sem hann var prófessor og deildarforseti við viðskiptadeild frá 2021 til júlí 2024.

Áður hafði hann starfað við viðskipta- og hagfræðideild HR frá árinu 2015. Stefan starfaði við rannsóknir og kennslu við Háskólann í Bamberg á árunum 2005 til 2015 og var einnig á þeim tíma gestaprófessor við háskóla í Frakklandi, Þýskalandi og Kanada.

Stefan lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Bamberg, Þýskalandi, árið 2010 og meistaraprófi frá sama skóla í alþjóða og evrópskum viðskiptafræðum árið 2005.

Sérsvið Stefan eru sögð m.a fjármál fyrirtækja, sjálfbær fjármál, stafræn fjármál og stjórnarhættir fyrirtækja. Í fréttatilkynningu segir að hann hafi ritað fjölda greina á sínu sviði sem bæði hafa verið birtar í bókum og ritrýndum tímaritum. Auk þess hafi Stefan flutt erindi víða um heim, bæði á Íslandi, Norðurlöndunum, Evrópu og í Bandaríkjunum.

„Það er mér sönn ánægja að vera hluti af því sterka teymi sem starfar við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans í Reykjavík,“ segir Stefan.

„Efnahagslífið í heild og fyrirtækin krefjast uppfærðrar þekkingar, færni og hæfni. Í viðskipta- og hagfræðideild sköpum við og miðlum þekkingu og eflum færni og hæfni með framúrskarandi kennslu, framsæknum rannsóknum og samvinnu við fyrirtæki og aðra hagsmunaaðila í samfélaginu.“

Stefan tekur við starfinu af Jóni Þór Sturlusyni sem var ráðinn aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri efnahagsgreiningar hjá sænska fjármálaeftirlitinu.