Tæknifyrirtækið Ofar hefur ráðið Sigurð H. Ólafsson sem viðskiptastjóra nýs sviðs, innviðalausna.
Sviðið leggur áherslu á ráðgjöf, sölu og innleiðingu á háþróuðum lausnum fyrir netþjóna, gagnageymslur, netbúnað, stórtölvur og kerfissölulausnir. Meðal samstarfsaðila eru leiðandi tæknifyrirtæki á borð við Lenovo, IBM, Juniper, Fortinet, Nutanix, Cisco og Nvidia.
Sigurður kemur til Ofar með yfir 30 ára reynslu úr upplýsingatæknigeiranum og hefur áður starfað hjá fyrirtækjum á borð við Sensa, Origo og Nýherja. Hann er með sveinspróf í rafeindavirkjun og BA gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands með tölvunarfræði sem aukagrein. Sigurður er giftur Guðfinnu Hákonardóttur og þau eiga þrjú börn saman.
„Sigurður kemur til liðs við okkur með dýrmæta þekkingu og áratuga reynslu sem styrkir öflugt teymi Innviðalausna hjá Ofar. Við leggjum mikla áherslu á að byggja upp langtímasambönd við viðskiptavini og samstarfsaðila. Sigurður passar fullkomlega inn í þá sýn,“ segir Jón Mikael Jónsson, framkvæmdastjóri Ofar.
„Það er gaman að stíga inn í nýtt hlutverk á þessum spennandi tímapunkti. Ofar er að stækka hratt og það er skýr sýn á að verða leiðandi í lausnum fyrir innviði.Ég hlakka til að vera hluti af þeirri vegferð,“ segir Sigurður H. Ólafsson.