Skarphéðinn Berg Steinarsson hefur ákveðið að láta störfum sem ferðamálastjóri um næstu áramót. Hann tók við embættinu í ársbyrjun 2018 og var þá skipaður til fimm ára.
Í færslu á Facebook segir Skarphéðinn að honum hafi boðist til að halda áfram í fimm ár til viðbótar en ákveðið að láta staðar numið.
„Hugur minn stendur til þess að takast á við nýjar áskoranir í ferðaþjónustu. Hvað það verður nákvæmlega á eftir að koma í ljós en víst er að næg eru tækifærin.“
Í tilkynningu menningar- og viðskiptaráðuneytisins segir að embætti ferðamálastjóra verði auglýst innan skamms tíma, en ráðherra skipar í það til fimm ára í senn.