Maríjon Ósk Nóadóttir hefur verið ráðin til almannatenglafyrirtækisins Kvis og mun þar sinna fjölmiðla- og lögfræðiráðgjöf. Maríjon er lögfræðingur að mennt.
Kvis var stofnað fyrir sex árum af Hödd Vilhjálmsdóttur sem hefur séð ein um fyrirtækið. Maríjon þekkir Hödd frá tíma þeirra hjá Vodafone en þær voru einnig í lögfræðinámi í HÍ á sama tíma. „Við höfum reglulega talað um að gera eitthvað skemmtilegt saman. Núna var kominn tími fyrir mig til taka að mér nýjar áskoranir,“ segir Maríjon en hún hefur undanfarin sex ár starfað hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Hún hefur samhliða vinnu sótt ýmis námskeið ásamt endurmenntun hjá HÍ síðastliðin ár.
„Mér finnst það alveg nauðsynlegt og helst vil ég læra hluti sem tengjast ekki beint því sem ég fæst við í eigin starfi. Það gefur mér aðra sýn á hlutina og hjálpar manni að temja sér ný vinnubrögð. Í miniMBA náminu hjá Akademias kynntist ég svo t.d. teymishugsuninni sem ríkir í hugbúnaðargeiranum en í stjórnsýslunni er það oft þannig að maður sér bara svolítið um sitt. Að gefa starfsfólki tækifæri á að sækja svona námskeið getur haft veruleg áhrif inni í fyrirtækjum.“
Maríjon er í sambúð með Reynaldi Hinrikssyni, flugstjóra, og saman eiga þau Karítas og Arnar Hrafn sem verða átta og fjögurra ára síðar á árinu. Vegna fjölskyldulífsins hefur hún takmarkaðan tíma fyrir áhugamál en reynir að stunda útivist að minnsta kosti í hálftíma á dag, hvort sem það eru hlaup eða fjallgöngur. Hún líkir sér við hund sem þurfi að viðra því annars fer hún í vont skap. Fjölskyldan er búsett í Garðabænum og því hleypur hún gjarnan hjá Vífilsstaðavatni og í Heiðmörk.
Spurð um nafnið sitt, segir Maríjon Ósk að upphaflega hafi hún átt að heita Katla Sif. „Skömmu fyrir skírnina dreymir mömmu um að í skírninni sjálfri hafi presturinn hafnað nafninu og sagt að barnið skyldi heita Maríjon. Langamma sagði henni að maður ætti alltaf að hlusta á draumana sína jafnvel þótt nafnið væri afskaplega ljótt því það myndi örugglega venjast.
Í kjölfarið setjast foreldrarnir niður og skrifa allar útgáfur af nafninu og enduðu á Maríjon. Presturinn hringdi heim nokkrum dögum síðar og segir að biskupinn hafi samþykkt nafnið að því gefnu að íslenskt nafn fylgdi með. Pabbi var ekkert að flækja málið og svaraði „hafðu það bara Ósk“, án þess að ræða það frekar við mömmu.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .