Elko hefur ráðið stjórnendur í þrjár nýjar stöður hjá fyrirtækinu til að styðja við stafræna þróun og efla enn frekar þjónustu við viðskiptavini. Sófús Árni Hafsteinsson tekur við nýju stöðugildi viðskiptaþróunarstjóra, Jónína Birgisdóttir hefur verið ráðin þjónustustjóri og Þórkell Þórðarson tekur við nýju stöðugildi sérfræðings í stafrænni þróun.

Sófús Árni hefur starfað hjá Elko frá 2007, fyrst sem sölufulltrúi og síðar verslunarstjóri Elko í Lindum í sjö ár. Hann hefur síðustu þrjú ár verið þjónustustjóri Elko og borið ábyrgð á innleiðingu á þjónustuveri og vefverslun Elko. Hann er að klára BSc. í viðskiptafræði í Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun. Sem viðskiptaþróunarstjóri Elko stýrir Sófús verkefnum þvert á fyrirtækið, með sérstaka áherslu á framþróun og innleiðingu nýrra verkefna og kerfa, að því er kemur fram í tilkynningu. Þá leiðir viðskiptaþróunarstjóri stafræna deild fyrirtækisins.

Jónína, nýr þjónustustjóri, tekur sæti í framkvæmdastjórn og ber ábyrgð á þjónustu og þjónustustefnu Elko. Áður var hún þjónustustjóri hjá Ölmu íbúðafélagi. Hún er með B.A. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og leggur lokahönd á mastersgráðu við sama skóla.

Þórkell hefur starfað hjá Elko frá árinu 2011, fyrst sem sölufulltrúi í Skeifunni og síðar verslunarstjóri í sömu verslun. Lengst af hefur hann unnið í störfum tengdum upplýsingatækni og ferlum í vefverslun Elko. Síðustu ár hefur hann verið vefstjóri og verkefnastjóri í upplýsingatækni. Sem sérfræðingur í stafrænni þróun mun Þórkell taka þátt í mótun og framkvæmd stafrænnar stefnu fyrirtækisins. Starf hans heyrir þá undir viðskiptaþróunarstjóra.

Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri ELKO:

„Hjá Elko er stafræn þróun með áherslu á þjónustu við viðskiptavini á fleygiferð. Verkefnum hefur fjölgað og þau orðið umfangsmeiri og við því bregðumst við, bæði með nýjum stöðugildum og nýju fólki. Við erum stolt af því að hjá Elko fái fólk tækifæri til að vaxa í starfi og takast á við ný verkefni, líkt og þeir Sófús Árni og Þórkell, um leið og við fögnum nýjum starfskrafti og bjóðum Jónínu velkomna.“