Stefán Ragnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, hefur óskað eftir að láta af störfum eftir 26 ár hjá félaginu og hyggst hverfa til annarra starfa, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.
Samkaup rekur verslanir undir m.a. merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar og Iceland
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, mun taka við daglegri stjórn verslunarsviðs þar til ráðið hefur verið í starfið.
„Ég vil þakka Stefáni fyrir hans mikla og góða starf fyrir félagið. Hann hefur gegnt mörgum mismunandi hlutverkum á vettvangi Samkaupa og hefur tekið virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað innan fyrirtækisins síðustu ár. Nú síðast sem framkvæmdastjóri á verslunarsviði félagsins. Ég óska Stefáni góðs gengis í þeim verkefnum sem hann hyggst snúa sér að og þakka fyrir gott samstarf á liðnum árum,” segir Gunnar Egill.