Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish Holding AS, hefur ákveðið að stíga til hliðar og segja af sér. Hann mun halda stöðunni þar til stjórn fyrirtækisins hefur fundið nýjan forstjóra.

Arctic Fish er laxeldisfélag með starfsemi á Vestfjörðum en félagið á og rekur sína eigin landeldisstöð með framleiðslugetu upp á 4 milljónir fiska.

„Það að starfa sem forstjóri Arctic Fish hefur verið ótrúlegt ferðalag. Undanfarin sjö ár hef ég notið þeirra forréttinda að vinna með frábæru teymi og verða vitni að örum vexti bæði hjá fyrirtækinu og hjá iðnaðinum í heild sinni,“ segir Stein.

Øyvind Oaland, stjórnarformaður Arctic Fish, segir að Stein Ove hafi helgað miklum krafti og tíma í Arctic Fish og sé að skila góðu búi með traustar vaxtaráætlanir í framtíðinni.