Nýsköpunarfyrirtækið Swipe hefur ráðið Steinar Þór Smára sem tæknistjóra. Hann kemur til með að leiða þróun hugbúnaðarlausn sem Swipe hyggst setja á laggirnar á næstu misserum, en fyrirtækið sérhæfir sig í því að vinna með áhrifavöldum á samfélagsmiðlum á Íslandi og erlendis.

Steinar er tvítugur og er á öðru ári í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík.

„Við fengum frábær meðmæli frá vini okkar í tæknigeiranum um að Steinar væri öflugur forritari. Við erum mjög spennt fyrir því að vinna með honum að þróa þessa hugbúnaðarlausn sem hefur verið í pípunum hjá okkur í þónokkurn tíma", segir Gunnar Birgisson, meðeigandi Swipe.

„Hugbúnaðarlausnin snýr að starfsemi áhrifavalda út um allan heim og Steinar mun hjálpa okkur að gera þessa sýn að veruleika.“