Steingrímur Hermannsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra er látinn. Steingrímur lést í morgun, mánudaginn 1.febrúar, á heimili sínu í Garðabæ. Hann var 81 árs.

Frá þessu er greint á vef Framsóknarflokksins. Þar segir að Steingríms verði sárt saknað, hann hafi notið mikillar hylli sem stjórnmálamaður hjá stórum hluta þjóðarinnar.

Steingrímur fæddist 22.júní 1928. Hann var sonur hjónanna Hermanns Jónassonar og Vigdísar Oddnýjar Steingrímsdóttur. Eftirlifandi kona Steingríms er Guðlaug Edda Guðmundsdóttir. Saman áttu þau börnin Hermann Ölvi, Hlíf og Guðmund. Steingrímur eignaðist þrjú börn með fyrri konu sinni. Þau heita Jón Bryan, Ellen Herdísi og Neil.

Steingrímur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1948, prófi í rafmagnsverkfræði frá Illinois Institute of Technology í Chicago 1951 og M.SC prófi frá California Institute of Technology 1952.

Steingrímur starfaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952-1953 og hjá Áburðarverksmiðjunni hf. 1953-1954. Hann starfaði sem verkfræðingur við Southern California Edison Company í Los Angeles 1955-1956. Frá 1957-1978 var Steingrímur Framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins og framkvæmdastjóri atvinnumálanefndar ríkisins 1957-1961.

Steingrímur Hermannsson var kjörinn á þing fyrir Vestfirðinga árið 1971. Hann var þingmaður Vestfjarðakjördæmis til 1987 og þingmaður Reykjaneskjördæmis 1987-1994. Steingrímur var skipaður dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráðherra 1. september 1978 og gegndi því starfi til 12. október 1979. Í febrúar 1980 varð Steingrímur sjávarútvegs- og samgönguráðherra og sat í embætti fram á vorið 1983. 26. maí það ár varð Steingrímur forsætisráðherra. Hann gegndi því starfi fram á mitt ár 1987 en tók við embætti utanríkisráðherra 8. júlí það ár. 26. september 1988 varð Steingrímur aftur forsætisráðherra og sat til 30.apríl 1991. 1994 varð Steingrímur Seðlabankastjóri og gegndi því starfi í fjögur ár.

Steingrímur var kjörinn ritari Framsóknarflokksins árið 1971 og tók við formennsku í flokknum árið 1979. Formennskunni gegndi hann til 1994.