Steingrímur Helgason hefur verið ráðinn fjármálastjóri alþjóðlega hugbúnaðarfyrirtækisins Kaptio. Þetta kemur fram í tilkynningu. Kaptio, stofnað árið 2012, smíðar bókunar- og viðskiptatengslahugbúnað fyrir ferðaþjónustu.

Steingrímur starfaði áður hjá Landsbankanum þar sem hann var forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar frá 2009 til 2019. Í framhaldinu starfaði hann við sjálfstæða ráðgjöf.

Steingrímur er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann er kvæntur Valgerði Arnardóttur viðskiptafræðingi og eiga þau saman þrjá syni.

Viðar Svansson, framkvæmdastjóri Kaptio:

„Við erum afskaplega ánægð með að hafa fengið Steingrím til liðs við okkur enda afar reynslumikill. Það mun skipta máli fyrir Kaptio nú þegar við erum að fara inn í tíma mikillar sóknar þar sem áherslan verður ekki síst á vaxtarfjármögnun félagsins og samskipti við nýja fjárfesta."