Elvar Páll Sigurðsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri Men&Mice, en hann hefur stýrt stafrænni markaðssetningu félagsins síðastliðin þrjú ár. Men&Mice er nýsköpunar- og hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir stórfyrirtæki og stofnanir sem reka flókna netinnviði. „Þetta er markaður sem er að stækka hratt og við finnum fyrir mikill þörf hjá fyrirtækjum að vera með hugbúnaðarlausn líkt og okkar“.

Elvar er trúlofaður Eyrúnu Rakel Agnarsdóttur talmeinafræðingi og þau eiga tvö börn saman, Elís Arnar sem er fjögurra ára og Emmu Hjördísi sem er eins árs. Eftir menntaskóla fóru þau Elvar og Eyrún saman í háskóla í Bandaríkjunum á fótboltastyrk, hann í líffræði en hún í talmeinafræði. „Planið var alltaf að verða læknir eins og bróðir minn. Það plan átti svo eftir að breytast en ég fann að það var annað sem togaði meira í mig heldur en læknisfræðin.“

Hann kláraði líffræðinámið í Bandaríkjunum og fór svo í  framhaldsnám í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum í Háskóla Íslands skömmu eftir að hann kom heim frá Bandaríkjunum, og útskrifaðist árið 2017.

Elvar á fótboltaferil að baki sem lauk árið 2018. „Ég spila með Breiðablik upp yngri flokkana og var í hóp hjá meistaraflokki þegar félagið varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti árið 2010. Eftir að ég kem úr háskólaboltanum spila ég fyrir Breiðablik og Leikni, en verð síðan fyrir því óláni að fótbrotna árið 2018. Á svipuðum tíma átti ég von á barni og ákvað að taka föðurhlutverkið fram yfir fótboltann og setja orkuna og tímann sem fór í fótboltann í annað.“

Elvar segist stoltur af uppeldisfélaginu Breiðabliki sem vann sinn annan Íslandsmeistaratitil nú á dögunum. „Þetta hafa verið 12 ár af sársauka sem er loksins á enda.“

Nánar er rætt við Elvar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.