Tomasz Jan Horyn hefur verið ráðinn forstjóri PCC BakkiSilicon, sem rekur kísilver á Bakka við Húsavík. Hann tekur við starfinu um áramótin af Gesti Péturssyni sem tekur við embætti forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar.

Tomasz Jan Horyn hefur starfað sem rekstrarstjóri (COO) hjá PCC á Bakka undanfarin fimm ár. Þar áður starfaði hann í stjórnendastöðu hjá ArcelorMittal Poland, stærsta stálframleiðanda Póllands.

Þá hefur Andri Dan Traustason, fjármálastjóri PCC, einnig tekið við stöðu aðstoðarforstjóra kísilversins. Andri, sem hefur starfað hjá PCC frá árinu 2018, er með meistaragráðu i áhættustýringu frá University of Edinburgh Business School.