Þórdís Jóna Ingigerðardóttir leiðir nú tækniþróun hjá Revera en hún er tæknistjóri og einn stofnenda fyrirtækisins. Í nýja starfinu mun hún leggja áherslu á nýsköpun, sjálfvirkni og lausnir fyrir viðskiptavini og notendur.

Í tilkynningu segir að hún muni stýra tækniþróun félagsins með áherslu á notendavænar og gagnadrifnar lausnir sem styðja við vöxt fyrirtækja.

Áður starfaði Þórdís sem meðstofnandi og tæknistjóri Smart Solutions þar sem hún stýrði þróun stafrænnar ökuskírteinislausnar í samstarfi við Stafrænt Ísland, Ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytið og sem vörueigandi hjá Stokkur Software.

Hún hefur einnig stýrt þróun hugbúnaðarlausna og kerfa fyrir bæði opinbera aðila og fyrirtæki, meðal annars á sviði greiðslumiðlunar þar sem hún vann með lausnir frá Alipay og WeChat Pay.

„Markmið okkar er að byggja lausnir sem skipta máli og hjálpa fyrirtækjum að ná raunverulegum árangri,” segir Þórdís Jóna.