Andes hefur ráðið til starfa þrjá nýja starfsmenn, þau Davíð Guðna Halldórsson, Helgu Valdísi Cosser og Árna Þór Jónsson. Þau koma inn í ört vaxandi starfsmannahóp Andes, sem sérhæfir sig í innleiðingu AWS skýjalausna hérlendis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Davíð Guðni Halldórsson er innviðaforritari, en hann er vottaður sem AWS arkitekt og er með með BSc í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði áður hjá hugbúnaðarfyrirtækjunum Tempo og Vice Verca.
Helga Valdís Cosser hefur verið ráðin sem rekstrar- og fjármálastjóri Andes. Hún starfaði áður hjá Advania sem sérfræðingur á fjármálasviði. Helga er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.
Árni Þór Jónsson kemur inn sem viðskipta- og verkefnastjóri hjá Andes. Hann er tölvunarfræðingur að mennt með MPM gráðu í verkefnastjórnun. Hann kemur til Andes frá Festi, þar sem hann hefur undanfarin þrjú ár gegnt stöðu verkefnastjóra í upplýsingatæknideild. Árni er einnig vottaður AWS arkitekt og mun því aðstoða viðskiptavini Andes við forgangsröðun, greiningu og framkvæmd skýjaverkefna.
„Við höfum verið að bæta ört við okkur öflugu fólki í takt við sífelldan vöxt og er óhætt að segja að valinn maður sé í hverju rúmi hjá okkur. Þar eru þau Davíð, Helga og Árni engin undantekning en þau eiga það sammerkt að vera öll framúrskarandi á sínum sviðum og því einstök viðbót við gott og þétt teymi sérfræðinga með víðtæka þekkingu. Þau koma inn með reynslu sem kemur til með að stækka okkur enn frekar. Þau hafa þegar látið til sín taka innan Andes og verður spennandi að fylgjast með þeim takast á við áskoranirnar með okkur,” segir Ari Viðar Jóhannesson , framkvæmdastjóri og stofnandi Andes.
Andes styður stafræna vegferð með öruggri innleiðingu og yfirfærslu upplýsingatækniinnviða í AWS skýið og tryggir með því skalanleika, rekstrar- og gagnaöryggi viðskiptavina. Andes er fyrsta íslenska fyrirtækið sem hlýtur Advanced Partner vottun hjá Amazon Web Service. Allir starfsmenn Andes eru vottaðir af AWS.