Brynjar Þór Ólafsson, Sólrún Lovísa Sveinsdóttir og Aníta Auðunsdóttir hafa verið ráðin til Reita og hafa þau öll þegar hafið störf.
Þá hefur Sólrún hefur tekið við stöðu verkefnastjóra á þróunarsviði, Aníta sem lögfræðingur á lögfræðisviði og Brynjar sem verkefnastjóri viðhaldsverkefna.
Sólrún er með víðtæka reynslu af stýringu þróunar-, hönnunar og umbreytingarverkefna, m.a. hjá fasteignaþjónustu Landspítalans, hjá Nýjum Landspítala, Verkís verkfræðistofu og fyrir Mannverk.
Hún er með MSc gráðu í byggingaverkfræði, BSc gráðu í tæknifræði, diplómu í opinberri stjórnsýslu auk alþjóðlegrar IPMA vottunar í verkefnastjórnun.
Brynjar kemur til Reita frá Steypustöðinni þar sem hann starfaði sem verkefnastjóri reisinga á forsteyptum einingum. Brynjar er með BSc gráðu í byggingafræði, hefur mikla reynslu af áætlunargerð og kostnaðaráætlun ásamt áratuga reynslu af störfum sem múrarameistari.
Aníta bætist við lögfræðisvið Reita. Hún kemur til fyrirtækisins frá lögfræðistofunni MAGNA lögmenn, þar sem hún starfaði síðastliðin fimm ár og öðlaðist víðtæka þekkingu og reynslu á sviði lögfræði og ráðgjafar. Aníta er með ML-gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og BA-gráðu frá sama skóla. Þá öðlaðist hún málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2021.
„Sú vegferð sem fram undan er þegar við skilgreinum Reiti sem þekkingar og þróunarfyrirtæki hvílir á framúrskarandi starfsfólki. Árið hefur verið tíðindamikið og ótal mörg spennandi verkefni í kortunum og það er því mikill fengur að fá svona öflugt fólk til liðs við okkur. Ég býð Anítu, Brynjar og Sólrúnu hjartanlega velkomin til starfa,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.