„Það er ekkert smá spennandi að vera hluti af því sem ORF Líftækni er að gera. Þetta er mjög spennandi fyrirtæki og ég hef fylgst með því frá stofnun með stjörnur í augunum," segir Berglind Rán Ólafsdóttir, nýr forstjóri ORF Líftækni.
Fyrirtækinu var skipt upp í vor í ORF Líftækni og BIOEFFECT. Það starfar eftir þeirri sýn að vera virkur þátttakandi í breytingum í matvælaframleiðslu heimsins, með ræktun og framleiðslu dýravaxtarþátta fyrir stofnfrumuræktað kjöt. „Mér finnst mjög heillandi að taka þátt í því að vistkjötsmarkaðurinn geti farið að blómstra. Kjötframleiðsla í dag veldur mikilli losun og neysla og framleiðsla á kjöti verður að dragast saman.“
Berglind er með meistaragráðu í sameindalíffræði frá HÍ. Hún vann hjá Íslenskri erfðagreiningu í fimm ár áður en hún hélt á vit ævintýranna í Barcelona. Þar bjó Berglind í fjögur ár og útskrifaðist úr MBA-námi frá IESE Business School árið 2004. „Áður en ég sótti um hjá IESE fór ég út af því að mig langaði að læra spænsku. Ég lærði margt nýtt, þar á meðal tvö tungumál, viðskiptaensku og spænsku. Auk þess var ég ólétt úti í Barcelona og var þar í fæðingarorlofi í eitt ár eftir útskrift.“
Berglind lét gamlan draum rætast fyrir nokkrum árum síðan þegar hún byrjaði að æfa á trommur. Hún æfði á píanó í tíu ár þegar hún var yngri, en trommurnar blunduðu alltaf í henni. „Maðurinn minn gaf mér trommusett í afmælisgjöf fyrir fimm árum síðan. Ég vissi að mig langaði að byrja í hljómsveit um leið og ég væri búin með grunnáfanga, og fer í prufur eftir að hafa séð auglýsingu á Facebook. Ég fékk inngöngu í sveitina fyrir einu og hálfu ári síðan og við héldum okkar fyrstu tónleika á Gauknum í september síðastliðnum, sem er mjög skemmtilegt.“
Nánar er rætt við Berglindi í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.