Unnur Eggertsdóttir og Mateja Deigner hafa gengið til liðs við auglýsingastofuna Maura. Unnur hefur verið ráðin sem hugmynda- & textasmiður og verkefnastjóri og Mateja sem grafískur hönnuður.

Þá hefur Unnur starfað sem leikkona, söngkona og samfélagsmiðlaráðgjafi um árabil. Hún hefur áður unnið á auglýsingastofunum Tvist og Jónsson & Le’Macks ásamt því að hafa sinnt fjölbreyttum verkefnum á sviði lista, hérlendis og í Bandaríkjunum.

Hún var kosningastjóri VG í Reykjavík í síðustu Alþingiskosningum og samskiptastjóri framboðs Katrínar Jakobsdóttur til forseta Íslands í vor.

Mateja hefur víðtæka reynslu sem hönnuður og hönnunarstjóri á alþjóðavísu síðasta áratuginn og hefur starfað hér á landi með fyrirtækjum á borð við BIOEFFECT og Omnom. Undanfarin tvö ár hefur hún unnið sem listrænn stjórnandi hjá hönnunarstofunni Weird Pickle þar sem hún vann til FÍT gullverðlauna fyrr á þessu ári.

„Starfskraftar þessara tveggja hæfileikaríku kvenna munu svo sannarlega nýtast okkar viðskiptavinum vel og við erum í skýjunum með að fá þær í hópinn. Það verður líf og fjör í Maurabúinu á næstunni,“ segir Þröstur Skúli Valgeirsson, framkvæmdastjóri og eigandi Maura.