Sigurjón Sighvatsson, athafnamaður og kvikmyndaframleiðandi, er einn eigandi Sjóklæðagerðarinnar sem framleiðir hágæða útivistarfatnað undir merkinu 66°Norður. Félagið SF II keypti nýverið ríflega helmingshlut í Sjóklæðagerðinni en að baki því félagi er Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri Sjóklæðagerðarinnar, auk annarra. Helgi Rúnar er viðskiptafræðingur og rak Dale Carnegie um tíma á Íslandi. Sigurjón mun áfram fara fyrir tæpum helmingshlut í félaginu.
Poppstjarna í Flowers
Áhugi Sigurjóns á 66°Norður kviknaði árið 1996 þegar hann átti hlut í bandaríska undirfataf ramleiðandanum Joe Boxer. Það ár hélt Joe Boxer tískusýningu hérlendis í samstarfi við 66°Norður og eftir það fylgdist Sigurjón náið með fyrirtækinu. Hann eignaðist lítinn hlut í félaginu og árið 2005 eignaðist hann meirihluta í því, nú er hlutur hans tæpur helmingur.
Fataáhugi Sigurjóns kviknaði þegar hann var poppstjarna í hljómsveitinni Flowers en hljómsveitarmeðlimir klæddust sérsaumuðum búningum. Haustið 2010 opnaði Sigurjón vinnufataverslunina Vír á Grensásvegi. Með því var hann að leita aftur til uppruna 66°Norður með vinnufatabúð fyrir almenning. Vír á að bæta upp það litla úrval á landinu af fatnaði sem bæði er tískuvara og vandaður vinnufatnaður.
Hugleiðsla og jóga
Sigurjón er mikil reglumaður, hann borðar heilsusamlegan mat og er reyklaus bindindismaður. Hann stundar jóga og hefur áhuga á hugleiðslu. Hann stofnaði Íslenska íhugunarsetrið ásamt leikstjóranum David Lynch í maí 2009. Þar er farið eftir hugleiðslukerfi sem Bítlarnir tileinkuðu sér um tíma og aðlagað hefur verið að vestrænum lífsháttum.
Síðri en Einar Már
Sigurjón er kvikmyndaframleiðandi í Hollywood. Hann útskrifaðist frá Háskóla Íslands með BA-gráðu í ensku og almennum bókmenntum árið 1980. Hann lærði með Einari Má og Einari Kárasyni og að loknu námi sá hann að fyrrnefndir væru hæfari rithöfundar og því fór hann í kvikmyndagerð. Sigurjón fór til náms í Bandaríkjunum og útskrifaðist með MFA-gráðu frá háskólanum í Suður-Kaliforníu í Los Angeles.