Nýja árið hefst af krafti hjá landeldisfyrirtækinu First Water. Framkvæmdir við nýtt vinnsluhús hefjast í Þorlákshöfn og fundað verður með erlendum fjárfestum. Áhuginn meðal fjárfesta erlendis er mikill að sögn Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra First Water, enda aðstæður til landeldis einstakar. Er það bæði vegna endurnýjanlegrar orku og ekki síður vatnsins. Staðsetningin sé þá góð með tilliti til útflutnings.

„Það eru styttri leiðir á markaði,“ segir Eggert. „Við erum bara þrjá kílómetra frá bryggju og það fara þrjú skip á viku til Evrópu frá Þorlákshöfn. Svo tekur okkur bara um klukkutíma að keyra í bæinn ef við viljum fara með Eimskip til Ameríku eða út á flugvöll til að fljúga til Ameríku.“

Þar sem matvælaframleiðslu er að ræða eru ýmsar ráðstafanir í gildi til að tryggja öryggi og hreinlæti. Hönnun stöðvarinnar er eftir norskum stöðlum og skipulag miðar að því að lágmarka smit. Þá er hvert ker einangrað og ekki tengt öðrum, sem þýðir að ef vandamál kemur upp í einu keri smitast það ekki í önnur.

„Við hugsuðum þetta þannig vegna þess að þegar þú ert kominn með 50 þúsund tonn í stöðina þá eru það 70 milljarðar af verðmætum og þú vilt ekki að eitthvað eitt gerist og allt skolist út. Það þarf að passa rosalega vel upp á öryggi og velferð laxins því ef fiskurinn verður stressaður þá getur þú misst mikinn fjölda, eða hreinlega að stressið verði til þess að holdið verði ekki eins gott og þá getum við getum ekki selt fiskinn.“

Mannauðurinn skiptir ekki síður miklu máli en það hafi gengið vonum framar hjá First Water að fá til sín starfsfólk. Eins og víðar er þó ein helsta áskorun eldisfyrirtækja að fá til sín hæft starfsfólk með rétta menntun. Fyrirtækið hefur því fengið til sín reynslubolta frá Færeyjum.

„Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að ná í svona aðila til þess að setja upp strúktúrinn, hvað fólk þarf að gera á hverjum degi og hvað þarf að passa upp á, vegna þess að þeir sem hafa unnið við þetta og hafa reynsluna, þeir hafa lent í öllum þessum hlutum sem eru óvæntir,“ segir Eggert.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild hér.