Undanfarin ár hafa reynst krefjandi fyrir kvikmyndahús hér á landi og víðar í heiminum þar sem heimsfaraldur og síðar verkföll í Hollywood settu strik í reikninginn. Nú hefur rofað til í bransanum og segir Alfreð Ásberg Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, að árið 2025 verið traust kvikmyndaár en árið 2026 virðist þó ætla að slá öll met.

„Það sem setur tóninn strax eru risaverkefni sem eru að sigla inn frá virtustu leikstjórum samtímans: Christopher Nolan með The Odyssey og Denis Villeneuve með Dune: Part Three. Þar að auki kemur James Cameron með Avatar: Fire and Ash í lok árs 2025, og sú mynd mun án efa halda dampi langt inn í árið 2026. Þetta eru allt nöfn sem geta fært fólk í bíóhúsin og skapað enn betri kvikmyndaupplifun,“ segir Alfreð.

„Svo er eitt stórt verkefni í viðbót 2026 sem er sérstaklega sögulegt og á eftir að vekja mikla athygli þegar það verður opinberað, en það hefur enn ekki verið formlega tilkynnt. Ég get því miður ekki sagt meira á þessum tímapunkti, en það verður eitthvað sem fólk mun örugglega vilja sjá.“

Fleiri kvikmyndir séu líklegar til að draga fólk að. Má þar nefna svokallaðar IP-myndir á borð við Spider-Man: Brand New Day, Avengers: Doomsday og The Mandalorian & Grogu, sem og myndir byggðar á áður útgefnu efni á borð við Project Hail Mary og The Hunger Games: Sunrise on the Reaping. Þá séu hryllingsmyndir í mikilli sókn með 28 Years Later: The Bone Temple, Scream 7 og The Bride í leikstjórn Maggie Gyllenhaal með Christian Bale í aðalhlutverki. Á sama tíma komi gamanmyndir á borð við Focker-in-Law og Scary Movie 6 til með að höfða til breiðari hóps, og teiknimyndageirinn styrkist með endurkomu Shrek 5 og Toy Story 5.

„Við sjáum því sjaldséða breidd: virta leikstjóra, stórar alþjóðlegar seríur, nýsköpun í efnisvali og fjölbreyttar upplifanir. Þetta er ár sem gæti raunverulega markað endurkomu kvikmyndahússins sem miðils, ekki bara sem vettvangs fyrir afþreyingu, heldur sem menningarlega og samfélagslega upplifun,“ segir Alfreð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.