Alþjóðleg vegferð Landsvirkjunar er ekki ný af nálinni en rekja má þá vegferð tvo áratugi aftur í tímann. Árið 2008 var dótturfyrirtækið Landsvirkjun Power stofnað og átti fyrirtækið meðal annars að leita á erlenda markaði.

Þau áform voru þó sett á ís í kjölfar efnahagshrunsins og fjármagn sem átti að fara í verkefni á erlendri grundu sett aftur inn í Landsvirkjun.

Verkefnið var tekið upp að nýju í kringum 2017 en þá kom Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar Landsvirkjunar, inn sem framkvæmdastjóri Landsvirkjun Power.

„Við höfum meira verið í ráðgjöf síðustu ár en nú erum við að reyna að fara meira í fjárfestingar. Við höfum verið með tilraunafjárfestingar síðustu fimm árin í Georgíu og Kanada og við byggjum ofan á þá reynslu og erum að skoða fleiri möguleika og þá sérstaklega á Norðurslóðum til að byrja með,“ segir Ríkarður en verið er að skoða möguleika á samstarfi bæði á Grænlandi og víðar í Kanada.

„Við getum vaxið alþjóðlega en það er skilyrði að við náum að sinna þeim tækifærum sem við höfum á heimamarkaði,“ segir Ríkarður. „Það er verið að fjárfesta í vexti, bæði heima og að heiman, í yfirveguðum skrefum.“

Að sögn Ríkarðs er stefnt á, að því gefnu að Landsvirkjun haldi svipuðum vaxtarhraða hérlendis, að eftir 20 ár gætu erlendar fjárfestingar orðið allt að 10% af starfsemi fyrirtækisins.

„Við viljum láta reyna á að þetta sé hluti af starfseminni og til þess að það sé hagkvæmni í að halda þessu úti þá þarf starfsemin að ná ákveðinni stærð. Þetta er um það bil sú stærðargráða sem við höfum talað okkur niður á að gæti verið hagkvæm til þess að halda starfseminni úti og til þess að réttlæta að fara í þetta yfir höfuð.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.