Ráðherra hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi og lagafrumvarp um verndar- og orkunýtingaráætlun sem snýr að virkjunarkostum í vindorku.

Fjölmargir aðilar hafa skilað inn umsögn um málið, bæði eftir að frumvarpið var lagt fram sem og á fyrri stigum. Meðal þeirra sem skiluðu inn umsögn að þessu sinni er fyrirtækið wpd Ísland, sem er dótturfélag þýsks orkufyrirtækis sem þróar og rekur vindorku- og sólarorkuver víða um heim.

Fyrirtækið - og raunar fleiri hagsmunasamtök sem hafa skilað inn umsögn - gerir meðal annars athugasemd við hæðarmörk sem kveðið er á um í frumvarpinu. Eins og með aðra virkjunarkosti er gert ráð fyrir að vindorkuver sem eru með uppsett rafafl 10 MW eða meira þurfi að fara í gegnum rammaáætlun en þar að auki er kveðið á um að vindorkumannvirki sem ná yflr 100 metra að hæð í hæstu stöðu þurfi að fara í gegnum rammann.

Að mati wpd gæti slík hæðartakmörkun leitt til þess að að gamlar, notaðar vindmyllur verði fyrir valinu þar sem engar nýjar vindmyllur sem eru undir 100 metrum séu í boði hjá framleiðendum í dag. Þá þyki sérstakt að takmarka vindorkukosti meira en aðra virkjunarkosti.

Lágt raforkuverð helsta hindrunin

Aðrir virkjunarkostir hafa sömuleiðis verið til skoðunar en starfshópur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skilaði á dögunum skýrslu um leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar. Var hópnum falið að skoða sérstaklega sólarorku, sjávarorku og smávirkjanir fyrir vatnsafl.

Var það mat starfshópsins að árið 2040 ætti að vera hægt að útvega árlega a.m.k. 3.800 GWst af viðbótarorku, sem samsvarar um 32% af þeirri viðbótarorku sem þarf samkvæmt raforkuspá Landsnets.

Fram kom á fundum starfshópsins með hagaðilum að lágt raforkuverð á Íslandi væri ein helsta hindrunin fyrir bættri orkunýtni, fjölgun smávirkjana og aukinni nýtingu nýrra orkugjafa á borð við sólarorku og sjávarorku, en ætla mætti að samkeppnishæfni þessara valkosta muni aukast á næstu árum með aukinni tækniþróun, lækkandi verði á tækjabúnaði og hækkandi orkuverði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur getal lesið fréttina í heild hér.