Talsverður munur er á launum stjórnar- og stjórnarformanna eftir tegund fyrirtækja samkvæmt nýrri samantekt Attentus og PwC á Íslandi en að auki voru fleiri þættir til skoðunar. Þannig vakti til að mynda athygli að 69% stjórnarmanna voru 50 ára eða eldri árið 2023 en einungis 4,5% yngri en 40 ára t.d.

„Aldursdreifingin kom ekki á óvart, flestir eru yfir fimmtugt vegna þess að til að sitja í stjórn þarftu að vera með ákveðna reynslu. En þetta er líka spurning um heilbrigða aldursdreifingu innan stjórna, hvort það að vera að leita að reynslumiklu fólki eða hvort það sé kostur að fá yngra fólk inn. Það getur skipt máli að við stjórnarborðið sé sem fjölbreyttastur hópur, það séu ekki allir 50+ með sömu menntun og sömu reynslu,“ segir Drífa.

Hafsteinn Már Einarsson, stjórnandi markaðslausna og greininga hjá PwC á Íslandi, bendir á að nýjungar á markaði gætu hreyft við samsetningu stjórna.

„Eins og er núna að gerast með gervigreindina og annað slíkt, þá fara kannski aðilar við stjórnarborðið að átta sig á að þarna vanti hreinlega þessa þekkingu og það gæti leitt til þess að það verða teknir inn yngri aðilar, sem dæmi.“

Stærri og umfangsmeiri skýrsla á leiðinni

Samantektin verður hluti af ítarlegri og umfangsmeiri skýrslu sem Attentus og PwC stefna á að birta í haust. Þar verður horft til þess að taka fleiri fyrirtæki inn og fá frekari upplýsingar og gögn svo þau séu samanburðarhæf og hægt að greina þau enn frekar. Þar að auki er stefnt á að bera saman árið 2023 við árið 2024 og mögulega kæmi til skoðunar að fara aftur í tímann.

„Við viljum ná sem flestum fyrirtækjum inn í mengið. Þá getum við skoðað þetta út frá stærð félaganna veltulega séð, skoðað hvort það er einhver munur þar, erum við að sjá eitthvert trend, af hverju er munurinn eins og hann er, stærð félaganna skiptir miklu máli og erlent eignarhald hefur áhrif. Þannig að það eru einhver félög þarna úti sem við myndum vilja hafa inni líka,“ segir Drífa og tekur Hafsteinn undir það.

„Með svona gagnasöfn og annað þá þarftu ákveðinn krítískan massa, þú þarft að hafa ákveðið magn af upplýsingum til að geta unnið með þær og því stærra sem mengið er því meira er hægt að gera með það og setja fram einhverjar frekari greiningar sem gætu verið áhugaverðar. En þarna erum við engu að síður komin með ansi stór og öflug fyrirtæki inn strax og vonumst til að geta unnið með. Það vantar náttúrulega einhver fyrirtæki sem við viljum klárlega fá til viðbótar þarna inn og við munum reyna að sækja og reyna að stækka þetta sem hraðast. En tíminn verður bara að leiða það í ljós hvernig það gengur,“ segir Hafsteinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.