Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, segir að félagið sé nú í miðju umbreytingarverkefni og nú þegar að samstæðan er komin í sitt framtíðarhorf fái áframhaldandi vöxtur og aukin arðsemi óskipta athygli hans.
Samruni VÍS og Fossa gekk í gegn í október 2023 og um áramótin sl. varð Skagi formlega móðurfélag samstæðu VÍS trygginga, Fossa fjárfestingabanka og Íslenskra verðbréfa, sem varð til með sameiningu SIV eignastýringar og ÍV sjóða.
„Við vorum í raun að reka fjögur fjármálafyrirtæki út fyrsta ársfjórðung á þessu ári þannig við eigum eftir að sjá hagræði af þeim viðskiptum koma fram þegar líður á árið. En það má segja að við séum ennþá úti í miðri á, við erum að horfa til okkar langtímamarkmiða sem við höfum sett til ársins 2026 og við erum að taka rétt skref jafnt og þétt í átt að þeim markmiðum,“ segir Haraldur.
„Við höfum verið virkur þátttakandi í þróun á fjármálamarkaðnum hérna heima. Við erum annars vegar búin að vaxa töluvert með innri vexti og það hefur gengið vel. Við erum orðin leiðandi á tryggingarmarkaði hvað varðar vöxt og svo höfum við náð fram góðum innri vexti í fjármálastarfsemi. Til viðbótar við það þá fórum við í kaup á Íslenskum verðbréfum og það var mikilvægt skref fyrir okkur til að ná stærðarhagkvæmni í fjármálastarfseminni.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.