Innviðaráðherra hefur boðað frumvarp þar sem lagt er til að undanþága orkumannvirkja frá fasteignamati verði felld niður. Eins og staðan er í dag greiða orkufyrirtæki allt að 1,65% af fasteignamati virkjanamannvirkja, eins og með aðrar atvinnueignir, í fasteignaskatt en nú er gert ráð fyrir að nýtt skattþrep verði tekið upp.

Í skýrslu verkefnahóps sem samanstóð af sérfræðingum KPMG, COWI og Gnaris og sett var fram í samstarfi við sérfræðinga HMS er miðað við að nýtt álagningarhlutfall yrði 0,25% en tekið er fram að endanlegt álagningarhlutfall yrði ákvarðað í lögum og því einungis um dæmi að ræða. Orkusveitarfélögin hafa aftur á móti kallað eftir 0,7% álagningarprósentu á meðan Samorka og fleiri kalla eftir álagningarprósentu nær 0,2%.

Í minnisblaði sem HMS skilaði til ráðherra um fasteignaskatta á orkuvinnslu segir að fyrir liggi mat á markaðsverði virkjana á Íslandi og á grundvelli þess væri hægt að ákvarða álagningarhlutfall fyrir fasteignaskatt virkjana.

Þá hafi verið kannaðar leiðir til að útdeila skatttekjum til sveitarfélaga á grundvelli hlutlægra reglna og gerð reiknilíkön sem nýta megi við slíka útdeilingu, sem hafi sýnt fram á að hægt sé tæknilega að framkvæma slíka útdeilingu.

Þó bendir HMS á að ef ákvarða eigi slíka hlutlæga útdeilingarreglu séu margir þættir sem hafa áhrif og í framkvæmd geti slík útdeiling orðið flókin.

„Hugsanlega væri því heppilegra að pólitísk sátt næðist um skiptingu tekna á milli sveitarfélaga. Vegna vandkvæða sem kunna að koma upp vegna flækjustigs álagningar og álitamála sem stafa af eðli fasteignaskatts við skiptingu tekna á milli sveitarfélaga telur HMS orkuskatt geta verið skilvirkari leið til gjaldtöku af orkuvinnslu heldur en fasteignaskatt,“ segir í minnisblaðinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.