Ný skýrsla Landsnets um kerfisjöfnuð varpar ljósi á sláandi stöðu þar sem auknar líkur eru á skerðingum til ársins 2028. Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landsneti, segir að það séu þó leiðir til að bregðast við en það þurfi bara að taka ákvarðanir.

Ný skýrsla Landsnets um kerfisjöfnuð varpar ljósi á sláandi stöðu þar sem auknar líkur eru á skerðingum til ársins 2028. Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landsneti, segir að það séu þó leiðir til að bregðast við en það þurfi bara að taka ákvarðanir.

„Við sjáum stærðina á vandamálinu núna eða líkurnar á því hversu stórt þetta mögulega getur orðið. Síðan þurfum við bara að fylgjast með því hvernig fer með vatnsstöðu lóna og hvernig þetta þróast allt saman áfram.“

Til að takast á við mögulegar skerðingar á forgangsorku þurfi að huga að fjölbreyttum leiðum en ákveðin úrræði séu til staðar.

„Það er hægt að þróa regluverkið með skýrum hlutverkum og ábyrgð aðila, láta markaðinn taka á þessu, vera með sveigjanlega verðlagningu og það er hægt að tryggja þátttöku stórnotenda til þess að draga úr áhættunni. Þannig það eru alveg leiðir,“ segir Svandís.

Hingað til hefur markaðslausnum lítið verið beitt og skort hefur gagnsæi á verðmyndum og verði á raforku hér á landi. Ef úr því yrði bætt gætu neytendur og notendur tekið þátt og brugðist við verðmerkjum með því að stýra framboði og eftirspurn og tryggja bætta orkunýtni.

„Það er hagkvæmasta leiðin fyrir okkur til þess að bregðast við ástandinu hverju sinni áður en við förum að fara inn í einhver inngrip eða þvingandi úrræði eða eitthvað álíka, sem að þingið getur náttúrulega gert en það er yfirleitt óhagkvæmasti og dýrasti kosturinn,“ segir Svandís en hún bendir á að ekki sé síður um gríðarstórt loftslagsmál að ræða.

Með innleiðingu markaðslausna, tilkomu nýrra virkjana og styrkingu flutningskerfisins sé hægt að snúa þróuninni við.

„Það er margt að gerast og almennur skilningur á því að það þurfi að hreyfast hratt. Þannig ég held að við þurfum að halda áfram að vera bjartsýn og sigla saman í gegnum þetta. Þetta er náttúrulega flókið og margar leiðir og lausnir sem þarf að huga að.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.