Kenningar stjórnmálaheimspekinga um fulltrúalýðræði hvíla flestar á þeirri forsendu að kjósendur greiði atkvæði sitt til þess eða þeirra sem þeir treysta mest til að véla um landsins gagn og nauðsynjar á ákveðnu kjörtímabili.

Þrátt fyrir það telja margir heppilegt að þjóðþing endurspegli að einhverju leyti samsetningu þjóðarinnar – að þingmenn hafi fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun og störf og svo framvegis.

Að því sögðu er áhugavert að greina bakgrunn þeirra sem bjóða sig fram í þingkosningunum sem fara fram 30. nóvember næstkomandi. Í úttekt Viðskiptablaðsins voru störf þeirra sem skipa fimm efstu sætin á listum þeirra framboða sem nú eiga sæti á þingi skoðuð.

Tilgátan sem unnið var með er að meirihluti stjórnmálamanna komi úr röðum opinberra starfsmanna. Störfin voru flokkuð með eftirfarandi hætti:

  • Í fyrsta lagi almenni markaðurinn. Í þennan flokk voru þeir frambjóðendur sem starfa hjá einkafyrirtækjum, verktakar, sjálfstætt starfandi og bændur.
  • Í öðru lagi voru stjórnmálamenn teknir í sérflokk og auk sitjandi alþingismanna og þeirra sem hafa stjórnmál að ævistarfi voru sveitarstjórnarfulltrúar stærri sveitarfélaga settir í þennan flokk.
  • Þriðji hópurinn er opinberi geirinn og ekki þarf að orðlengja um hverjir eru í þeim flokki.
  • Í næsta hópi voru þeir sem starfa hjá hinum svokallaða þriðja geira settir en þar er um að ræða félagasamtök, hagsmunasamtök og íþróttahreyfinguna svo dæmi séu tekin.

Fjórðungur úr einkageiranum

Samtals eru þetta 240 frambjóðendur. Niðurstaðan er sláandi. Tæplega 60% þessara frambjóðenda eru annaðhvort stjórnmálamenn sem fá laun greidd frá hinu opinbera eða opinberir starfsmenn.

Aðeins fjórðungur frambjóðenda kemur frá almenna markaðnum og átján prósent úr þriðja geiranum eða annars staðar frá.

Rétt er að hafa í huga að stór hluti þriðja geirans er fjármagnaður með opinberum framlögum. Þeir sem áttu ekki heima í þessum fjórum flokkum voru settir í afgangsflokk: Þeir voru 32 og þar er að finna nema, öryrkja og þá sem engar upplýsingar var hægt að finna um vinnuferil á Netinu – þeir voru nokkrir og verður það að teljast eftirtektarverður kostur í fari stjórnmálamanns í framboði að ná að fela netspor sitt með slíkum hætti.

Stjórnmálamenn áberandi

Vafalaust er hægt að benda á að skammur aðdragandi kosninga kunni að útskýra hversu margir stjórnmálamenn eru á listanum. Um það er hins vegar ekki hægt að fullyrða og það breytir ekki þeirri staðreynd að opinberir starfsmenn sem hafa ekki áður komið nálægt stjórnmálum eru fjórðungur frambjóðanda.

Þar að auki er eðlilegt að telja saman þá sem hafa helgað sig stjórnmálum bæði í landsmálum og á sveitarstjórnarstiginu saman með opinberum starfsmönnum sökum þess að réttindi þeirra og starfskjör eru sambærileg að undanskildum ráðningartímanum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild hér.