Landsbankinn hagnaðist um 10,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 9,0 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár hjá bankanum var 13,0% á öðrum fjórðungi og 11,5% á fyrri árshelmingi.
Rekstrartekjur Landsbankans á öðrum fjórðungi námu 22,7 milljörðum króna og jukust um 14,4% milli ára.
Mestu munaði um að hreinar vaxtatekjur jukust um 19,7% og námu 17,7 milljörðum. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna var 3,1% á fjórðungnum samanborið við 2,7% á öðrum fjórðungi 2024.
„Gott hálfsársuppgjör bankans sýnir hversu vel hann stendur. Breidd í þjónustu skilar sér í jöfnum og góðum rekstri og stöðugar framfarir efla ánægju viðskiptavina. Talsverðar vendingar hafa verið á mörkuðum síðustu þrjá mánuði sem hefur áhrif á afkomu af fjárfestingareignum en þjónustutekjur aukast frá sama tíma í fyrra. Það er ánægjulegt að þrátt fyrir viðvarandi hátt vaxtastig hafa vanskil ekki aukist,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Hún segir töluvert hafa hægst á íbúðaútlánum bankans samhliða minnkandi eftirspurn eftir óverðtryggðum íbúðalánum. Á hinn bóginn hafi lán til fyrirtækja aukist jafnt og þétt.
Eignir Landsbankans námu 2.305 milljörðum króna í lok júní síðastliðins og eigið fé var um 324 milljarðar.
Áhersla á að auka hlutdeild TM
Uppgjör og afhending hlutafjár vegna kaupa Landsbankans á TM tryggingum hf. fór fram 28. febrúar síðastliðinn og tók bankinn þá við rekstri félagsins. Afkoma TM á tímabilinu 28. febrúar til 30. júní af vátryggingarsamningum var 925 milljónir króna, þar af 655 milljónir á öðrum ársfjórðungi.
„Samþætting TM í samstæðu Landsbankans gengur vel. Við höfum gert ýmsar breytingar á skipulagi og starfsháttum til að styrkleikar samstæðunnar nýtist sem best og árangurinn hingað til lofar góðu,“ segir Lilja Björk.
„Áhersla okkar er á að auka hlutdeild TM á tryggingamarkaði með því að efla tryggingasölu í gegnum dreifinet Landsbankans sem og að viðhalda sterkum viðskiptasamböndum TM, sér í lagi meðal fyrirtækja.“
TM flutti flutti skrifstofustarfsemi sína aftur í miðborgina, að Kalkofnsvegi, í júní. Um leið fluttust 24 starfsmenn frá TM til bankans og útibú TM sameinaðist útibúi bankans í Reykjastræti 6.