Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) hefur sett alls 138 fyrirtæki á útilokunarlista. Þegar hafa verið seldar eignir að virði rúmlega þriggja milljarða króna úr eignasafni sínu vegna þessa. Félögin uppfylla ekki skilyrði nýrrar stefnu stjórnar sjóðsins um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar.
Útilokunin varðar fyrirtæki sem framleiða tilteknar vörur eða teljast brotleg við tiltekin alþjóðleg viðmið um mannréttindi og viðskiptasiðferði samkvæmt tilkynningu frá sjóðnum. Af fyrirtækjunum 138 eru 88 fyrirtæki sem vinna kol, olíusand og olíuleir, 13 fyrirtæki í tóbaksframleiðslu, 22 fyrirtæki sem framleiða umdeild vopn (e. controversial weapons) og 15 fyrirtæki sem teljast brjóta gegn „UN Global Compact“.
Nokkur af stærstu og þekktustu fyrirtækjum heims eru á listanum, á borð við Boeing, Airbus, General Electric, Rolls Royce, Shell, Chevron og Bayer svo eitthvað sé nefnt. Listann má sjá í heild sinni hér .
Í tilkynningunni kemur fram að félagið eigi enn hluti í félögum á listanum þar sem innleiðing stefnunnar muni eiga sér stað yfir tíma. „Innleiðing stefnunnar tekur tíma og því verður enn um sinn að finna fyrirtæki í eignasöfnum LV sem eru á útilokunarlista. Ástæðan er að enn sem komið er hefur LV takmarkaða möguleika til að tjá skoðanir um útilokun þegar sjóðurinn fjárfestir í erlendum eignum s.s. hlutabréfasjóðum,“ segir í tilkynningunni.
Útilokunin er sögð hluti af af stefnumótun stjórnar sjóðsins varðandi ábyrgar fjárfestingar sem getið hefur af sér tvær nýjar stefnur sem styðja við ábyrga langtímaávöxtun eigna, sjálfbærni og aðgerðir í loftslagsmálum.