Uppbygging háhraðalestarkerfisins High Speed 2 (HS2) í Bretlandi, sem var formlega kynnt til sögunnar árið 2009, hefur mætt mikilli gagnrýni vegna kostnaðar sem hefur vaxið umtalsvert.

Rishi Sunak, þáverandi forsætisráðherra, tilkynnti í fyrra að helmingur verkefnisins, sem hefði tengt Birmingham og Manchester, yrði settur til hliðar.

Nú stendur áætlaður kostnaður verkefnisins í 66,6 milljörðum punda, að sögn Sir Jon Thompson, formanns HS2 Limited, opinbers félags utan um verkefnið, en til samanburðar stóð áætlaður kostnaður árið 2013 í 37,5 milljörðum punda.

Meðal kostnaðar við lestarkerfið er uppbygging sérstakrar eins kílómetra yfirbyggingar í Sheephouse Wood í Buckinghamshire, sem koma á í veg fyrir að leðurblökur á svæðinu, þar á meðal hinar sjaldgæfu Bechstein leðurblökur, verði fyrir lestinni. Yfirbyggingin, sem mun kosta hundrað milljónir punda, sem nemur átján milljörðum króna, er nauðsynleg til að verkefnið uppfylli bresk umhverfislög.