Hagnaður Íslenska gámafélagsins jókst töluvert á milli ára en hann nam 184,8 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 86,5 milljónir árið á undan. Rekstrartekjur félagsins námu 5,9 milljörðum króna en rekstrargjöldin voru 5 milljarðar.
Aðalstarfsemi félagsins er almenn sorphirða, útleiga á gámum, bifreiðum og tækjum, rekstur fasteigna og skyldur atvinnurekstur. Í ársreikningi segir að mikill vöxtur sé framundan á næstu árum. Lagabreytingar sem taka gildi 1. janúar 2023 muni hafa í för með sér auknar skyldur íbúa til flokkunar á rusli.
Hluthafar í upphafi og lok árs 2021 voru tveir. Gufunes ehf, félag í eigu Óskars Eyjólfssonar, á 50% hlut og Hvalur ehf., félag í eigu Kristjáns Loftssonar, er með helmingshlut í félaginu. Framkvæmdastjóri félagsins er Jón Þórir Frantzson.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.