Öll félög nema tvö á aðalmarkaði lækkuðu á rauðum föstudegi í Kauphöllinni í dag. OMXI10 úrvalsvísitalan lækkaði um 3,6% í viðskiptum dagsins.
Þá lækkaði Síldarvinnslan mest allra félaga, um 5,8% í 120 milljóna viðskiptum. Félagið hefur verið á miklu flugi á undanförnum vikum og gengi bréfa félagsins aldrei verið hærra en í síðustu viku. Gengið stendur nú í 113 krónum á hlut og hefur heilt yfir lækkað um 10% frá því í síðustu viku.
Mikil velta var á aðalmarkaði í dag og nam heildarveltan 18,7 milljörðum króna. Mest var veltan með bréf Marel. Viðskipti með bréf félagsins námu 4,1 milljörðum króna og lækkaði gengi bréfa félagsins um tæp 5%.
Talsverð velta var með bréf bankanna á markaði. Viðskipti með bréf Arion námu 3,7 milljarða króna og lækkaði gengi bréfa félagsins um 3,7%. 1,7 milljarða velta var með bréf Íslandsbanka sem lækkuðu um 2,3% og 1,3 milljarða velta með bréf Kviku sem lækkuðu um 3,85%.
Eina félagið á aðalmarkaði sem hækkaði var Skel fjárfestingafélag, um 0,6% í 9 milljóna króna viðskiptum.