The British Business Bank (BBB), fjárfestingarbanki breska ríkisins, tapaði 135 milljónum punda á síðasta fjárhagsári eða 22,5 milljörðum króna.

Þetta kom fram þegar bankinn kynnti uppgjör sitt á dögunum en fjárhagsárinu lauk í mars síðastliðnum. Til samanburðar hafði bankinn skilað hagnaði upp á 619 milljónir punda eða tæplega 104 milljarða króna, árið á undan.

Ríkisbankinn var stofnaður árið 2014 og hefur það hlutverk að lána smærri fyrirtækjum fé gegn því að eignast hlut í viðkomandi fyrirtæki. Ennfremur fjárfestir bankinn í framtakssjóðum auk þess að hafa umsjón með fjármögnun svæðisbundinna fjárfestinga og nýsköpunarsjóða.