Tæplega 70% þátttakenda í markaðskönnun Viðskiptablaðsins telja að peningastefnunefnd Seðlabankans muni taka ákvörðun um að lækka vexti um 50 punkta á vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 20. nóvember í næstu viku.
Könnunin var send á 257 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudag og föstudag síðastliðinn og bárust 104 svör sem jafngildir 40% svarhlutfalli.
Þá spá níu af hverjum tíu þátttakendum því að verðbólgan verði undir 5% um þarnæstu áramót.
Þannig spá 47% þátttakenda því að verðbólgan verði á bilinu 4-5% í lok árs 2025. Á sama tíma spá 42% þeirra 3-4% ársverðbólgu.
Meiri bjartsýni ríkir hjá tæplega 6% svarenda sem spá því að verðbólgan nái markmiði Seðlabankans undir lok næsta árs, eða þar um bil, og verði á bilinu 2-3%.
Tæplega 4% þátttakenda spá þrálátri verðbólgu, og að hún verði á bilinu 5-6%. Þá spáir einn þáttakenda ársverðbólgu upp á 7-8% í lok árs 2025.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.