Skiptum á þrotabúi K acquisition ehf. lauk í síðasta mánuði án þess að nokkrar eignir hafi fundist í búinu en lýstar kröfur námu ríflega 3,8 milljörðum króna auk vaxta og annars kostnaðar. Því fékkst engin greiðsla upp í lýstar kröfur. Þetta kemur fram í auglýsingu frá Lögbirtingablaðinu .
K acquisition var aðaleigandi Keahotel fram að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins í desember á síðasta ári en félagið var lýst gjaldþrota mánuði síðar.
Eftir endurskipulagningu samstæðunnar eignaðist Landsbankinn 35% hlut í Keahótelum og sömu eigendur og áttu K acquisitions lögðu félaginu til nýtt hlutafé fyrir 65% hlut.
K acquisitions var stofnað utan um kaup á Keahotels árið 2017. Stærstu hluthafar félagsins voru bandarísku fjárfestingafélögin Pt Capital með 50% hlut, en félagið á einnig helmingshlut í Nova, JL Properties með 25% hlut og Erkihvönn, í eigu þeirra Fannars Ólafssonar, Kristjáns M. Grétarssonar, Þórðar Kolbeinssonar og Andra Gunnarssonar, með 25% hlut.
Sjá einnig: Fyrrum aðaleigandi Keahótela í þrot
Félagið var rekið með 1,4 milljarða króna tapi árið 2019. Sama ár voru eignir félagsins metnar á 28,7 milljarða, eigið fé var 590 milljónir og skuldir námu 28,1 milljarði. Stærsta eign félagsins stafaði af leigusamningum félagsins. Var afnotarétturinn af þeim bókfærður á 22 milljarða og leiguskuldir á 22,6 milljarða.