Íslenska sprotafyrirtækið Good Good hefur lokið rúmlega 400 milljón króna hlutafjáraukningu, með aðstoð Arcur Finance, til að styrkja sókn sína í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sprotafyrirtækinu.

„Þessi hlutafjáraukning gerir Good Good kleift að sækja af enn meiri krafti inn á Bandaríkjamarkað. Við erum með mörg tækifæri þar og þá sérstaklega með Keto sulturnar okkar, sem eru vinsælustu Keto sulturnar í Bandaríkjunum. Nú höfum við bolmagn til að ráða fleira starfsfólk og kynna vörurnar okkar enn betur fyrir Bandaríkjamönnum," segir Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Good Good, í tilkynningunni.

Vörur Good Good í rúmlega 1800 verslunum í Bandaríkjunum

„Í lok árs 2018 gerði Good Good dreifingarsamning við KeHE, einn stærsta dreifingaraðila Bandaríkjanna á hollum matvörum. KeHE er með 15 vöruhús í Bandaríkjunum og dreifir matvöru til meira en 30.000 verslana. Í samstarfi við KeHE hefur Good Good komið vörunum sínum í sölu hjá stórum keðjum eins og Safeway, SaveMart, Walmart, Lucky´s og Meijer. Eftir eins og hálfs árs samstarf við KeHE eru Good Good vörurnar komnar í rúmlega 1.800 verslanir í Bandaríkjunum,“ segir í tilkynningunni.

Netsala aukist mikið síðustu vikur

Í henni segir jafnframt að Good Good hafi lagt mikla áherlsu á netsölu bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Vörur fyrirtækisins hafi reglulega náð því að vera söluhæstar í sínum vörurflokkum á Amazon í Bandaríkjunum þar sem Good Good er í samkeppni við mörg heimsþekkt vörumerki. Covid-19 hafi svo valdið sprengju í netsölu en salan á Amazon hafi aukist um rúmlega 50% á síðustu tveimur vikum.

Sykurlausar matvörur sem vanalega eru fullar af sykri

Í tilkynningunni er Good Good lýst á eftirfarandi hátt:

„Good Good var stofnað árið 2015 og framleiddi í upphafi steviu dropa fyrir Íslandsmarkað. Í dag sérhæfir fyrirtækið sig í þróun og framleiðslu á matvörum, sem vanalega eru fullar af sykri, án viðbætts sykurs. Vinsælustu vörurnar eru sultur, hnetu- og súkkulaðismyrja, sem þykir ekki síðri en Nutella, sýróp og keto barir.

Good Good leggur áherslu á að skapa sér samkeppnisforskot með ómótstæðilegum vörum, sem eru jafngóðar eða betri á bragðið en þær sykruðu. Velgengni Good Good varanna má líka rekja til umbúða og ásýndar fyrirtækisins, en samskiptafélagið Aton.JL sá um hönnun þeirra.

Good Good byggir á íslensku hugviti, þekkingu, hönnun og markaðsstarfi. Öll vöruþróun, sölu og markaðsstarf, stýring aðfangakeðjunnar og gæðamál fara fram á Íslandi. Framleiðsla varanna fer hins vegar fram í Hollandi og Belgíu og er vörunum svo dreift í gegnum vöruhús fyrirtækisins í Tilburg í Hollandi og Virginiu í Bandaríkjunum.

Vörur fyrirtækisins fást í dag í rúmlega 2.500 verslunum í 16 löndum.“