431 milljónar króna tap varð á rekstri Green Highlander ehf., rekstrarfélags lúxushótelsins Deplar Farm í Fljótum í Skagafirði, á síðasta ári. Dróst tap félagsins lítillega saman frá fyrra ári er tapið nam 487 milljónum króna.

Rekstrartekjur félagsins námu 333 milljónum króna og drógust allverulega saman frá fyrra ári er þær námu 808 milljónum króna. Rekstrargjöld drógust aða sama skapi saman, úr 1,3 milljörðum árið 2019 í 763 milljónir króna árið 2020. Laun og launatengd gjöld námu 182 milljónum króna, en að meðaltali voru 10 stöðugildi hjá félaginu á síðasta ári.

Eignir félagsins námu 350 milljónum króna í lok árs 2020, skuldir námu 2,4 milljörðum króna, þar af 1,7 milljarðar til tengdra aðila, og eigið fé var neikvætt um ríflega 2 milljarða króna.

Félagið er alfarið í eigu hollenska félagsins Sun Ray Shadow Houdstermaatschappij BV í gegnum eignarhaldsfélagið Blue Elver hf.