Sjómannadagsráð, Hrafnista og DAS íbúðir kynntu í dag 15 ára þróunaráætlun sem felur í sér byggingu nýrra hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða fyrir allt að 50-60 milljarða króna á á þremur kjarnasvæðum á höfuðborgarsvæðinu, Laugarási, Hraunvangi og Skógarbæ.

„Uppbyggingin verður fjármögnuð í áföngum á næstu 15 árum og felur í sér samstarf við ríki, sveitarfélög og fjármálastofnanir,“ segi í fréttatilkynningu.

Sjómannadagsráð rekur átta starfsstöðvar með heimilum Hrafnistu og leiguíbúðum DAS íbúða, staðsettar í 5 sveitarfélögum. Á Hrafnistu búa um 800 íbúar, þar starfa um 1700 starfsmenn og húsakostur um 100 þúsund fermetrar.

Þróunaráætlunin miðar að því að auka fjölda rýma um ríflega 300 til 2040. Þá er stefnt að fjölgun íbúða um tæplega 400 og bæta við úrræðum fyrir eldra fólk sem vill búa sjálfstætt en nálægt þjónustu.

„Áhersla er lögð á að heilsuefling og virknimöguleikar fyrir eldri borgara séu í forgrunni. Rannsóknir sýna að hreyfing og félagsleg þátttaka stuðla að bættri heilsu, vellíðan og sjálfstæði á efri árum. Með réttri nálgun og skipulagi má tryggja að stækkandi hópur eldra fólks fái þjónustu við hæfi og búsetu sem mætir ólíkum þörfum.“

Markmiðið með ofangreindri þróunaráætlun er sögð vera að tryggja fjölbreyttar búsetu og þjónustuleiðir fyrir stækkandi hóp eldra fólks og bregðast við brýnni þörf fyrir um 100 ný hjúkrunarrými á ári fram til ársins 2040‏.

Kjarnasvæði Hrafnistu að Laugarási.

„Við erum gríðarlega ánægð með hversu vel hefur tekist til við allt samráðsferlið. Við höfum hvarvetna mætt jákvæðu viðmóti og fengið gagnlega endurgjöf á áætlanir okkar. Áhersla okkar verður á að byggja upp vettvang þar sem samfélag fólks þróast og sem styður við aukin lífsgæði íbúanna. Hugmyndafræði lífsgæðakjarna hefur þróast enn frekar og styrkst í kjölfar þessarar vinnu. Við viljum gjarnan halda samráðinu áfram og opnum í dag vef þar sem almenningi gefst kostur á að skoða áætlunina og eins og hún er núna og senda okkur athugasemdir sínar og tillögur. Uppbyggingaráætlunin verður okkur leiðarljós næstu árin og við erum fullviss um að hún mun mæta þörfum og óskum íbúa Hrafnistu og DAS íbúða,“ segir Þröstur V. Söring, framkvæmdastjóri DAS íbúða og eignasviðs Sjómannadagsráðs.

Hrafnista í Hraunvangi í Hafnarfirði.