Bílaleigan Hertz hefur endurráðið 66 starfsmenn sem áður hafði verið sagt upp síðastliðinn september. Þetta staðfestir Sigfús Bjarni Sigfússon, forstjóri Hertz, í samtali við Morgunblaðið. Nær öllum starfsmönnum var sagt upp sökum veirufaraldursins en alls starfa á áttunda tug manns hjá fyrirtækinu.

Sigfús segir að fram undan séu bjartir tímar. „Það er miklu bjartara yfir öllu. Maður finnur fyrir rosalegri bjartsýni á markaðnum. Það er ljós við enda ganganna,“ segir Sigfús. Enn fremur telur hann að vonir séu bundnar við að ferðaþjónustan taki við sér á næsta ári.

Sigfús gerir ráð fyrir að starfsmönnum hjá Hertz hérlendis muni fjölga næsta sumar. Eftir endurráðninguna vinna alls 74 hjá Hertz, þegar mest á lét unnu 140 manns hjá fyrirtækinu.