Ferðaþjónustufyrirtækið Wake up Reykjavík hagnaðist um 72 milljónir króna árið 2022 og námu launagreiðslur 55 milljónum króna samkvæmt áætlun Viðskiptablaðsins. Stofnendur og eigendur fyrirtækisins eru þeir Daníel Andri Pétursson og Egill Fannar Halldórsson en Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir var á dögunum ráðin framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Fyrirtækið er efst á lista yfir þau samlags- og sameignarfélög á sviði verslunar og þjónustu sem högnuðust mest árið 2022 samkvæmt áætlun Viðskiptablaðsins.

Næst á eftir kemur félagið Mr. B þar sem hagnaður nam 59 milljónum og launagreiðslur 106 milljónum. Mr. B er rekstaraðili bpro verslunar, heildverslunar með fagvörur fyrir hárgreiðslu- og snyrtistofur, en eigandi félagsins er hárgreiðslumeistarinn Baldur Rafn Gylfason.

Í fjórða sæti á listanum er síðan ferðaþjónustufyrirtækið Kleif slf., félag sem sér um rekstur á lúxusvillunni Kleif Farm í Ei­lífs­dal í Kjós. Hagnaður nam 46 milljónum króna og launagreiðslur níu milljónum. Skráður eigandi er Ólafur Þór Júlíusson.

Alls eru þrjátíu fyrirtæki á sviði verslunar og þjónustu á lista Viðskiptablaðsins en áætlaður hagnaður þeirra nemur samanlagt 719 milljónum króna og launagreiðslur 940 milljónum.

Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti í síðustu viku.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.

Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.