Omega ehf., fjárfestingafélag í eigu fjárfestanna Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, hagnaðist um 771 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.
Rekstrartekjur félagsins jukust talsvert á milli ára, fóru úr 68 milljónum árið 2020 í 796 milljónir árið 2021. Þar munar mestu um 493 milljón króna tekjur félagsins í gegnum hlutdeildarfélög.
Félagið var eigandi að tveimur félögum sem teljast hlutdeildarfélög í ársbyrjun. Það hefur átt hlut í fjárfestingafélaginu P190 ehf. frá árinu 2016, en virði 33% eignarhlutarins jókst um 526 milljónir á árinu. P190 ehf. er eigandi 90% hlutafjár í félaginu Ásbrú ehf., sem fjárfest hefur í fasteignum við Keflavíkurflugvöll.
Þá hefur Omega verið eigandi að hluta í Yay ehf. frá árinu 2019 og nam hluturinn 26% í árslok 2021. Áhrif hlutarins hafði lítil áhrif á rekstur Omega á síðasta ári.
Félagið fjárfesti auk þess í tveimur félögum á árinu sem teljast hlutdeildarfélög. Annars vegar í ÍV SIF Equity Framing ehf., félag sem hefur það að markmiði að byggja upp eignasafn í fiskeldi og tengdri starfsemi. Fjárfestingin nam 710 milljónum króna, en virði 49% eignarhlutar Omega í félaginu lækkaði um rúmar 30 milljónir króna á árinu.
Omega keypti einnig í ÍV SIF Equity PES ehf. á árinu og nam sú fjárfesting 125 milljónum króna. Bókfært virði eignarhlutar Omega í félögunum fjórum nam 2,4 milljörðum króna í árslok.
Þá átti félagið hlut í átta öðrum félögum í árslok upp á 580 milljónir króna, þar á meðal rúmlega 14% hlut í nýsköpunarfyrirtækinu Kerecis.