Verðbólga í Tyrklandi mældist 78,6% í júní, samanborið við 73,5% í maí, og hefur ekki verið meiri frá árinu 1998. Verðbólgutölurnar, sem voru birtar í morgun, voru engu að síður undir spám greiningaraðila sem gerðu ráð fyrir að hún færi upp í 80%. Financial Times greinir frá.
Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti, sem hafnar þeirri almennu hagfræðikenningu að hærri vextir dragi úr verðbólgu, hefur skipað tyrkneska seðlabankanum að halda stýrivöxtum langt undir ársverðbólgu. Þá tilkynntu stjórnvöld í síðustu viku um 30% hækkun á lágmarkslaunum en sex mánuðum áður höfðu grunnlaun verið hækkuð um 50%.
Gjaldmiðill Tyrklands, líran, hefur tapað helmingi af verðgildi sínu gagnavert Bandaríkjadollaranum á síðustu tólf mánuðum. Veiking lírunnar á stóran þátt í vaxandi verðbólgu í landinu sem reiðir sig að miklu leyti á innflutning, sérstaklega þegur kemur að orku.